13/10/2025
PARTYZONE Á 35 ÁRA AFMÆLI Í DAG!
-----------------------------------------
Það var lítill útvarpsþáttur sem hóf göngu sína á framhaldsskólastöðinni Útrás 104.8 þegar tveir stráklingar úr Menntaskólanum við Sund mættu rétt fyrir kl 20 í hljóðver stöðvarinnar í kjallara Fjölbrautaskólans í Ármúla Laugardaskvöldið 13.október 1990. Þátturinn hafði fengið nafnið "The PartyZone" þar sem þáttastjórnendur höfðu sankað að sér upptökum á videospólur með lögum úr þættinum PartyZone á sjónvarpsstöðinni MTV. Bróðir Helga Más var einn þeirra örfáu hér á landi sem áttu gervihnattadisk sem náði MTV. Mikið af þeim lögum sem voru spiluð þar, glæný danstónlist þess tíma, heyrðist ekki í íslensku útvarpi og var því hugmyndin að koma þeim á framfæri í þessum nýja þætti á Útrás.
MS sá um þennan tveggja þátt í nokkrar vikur þar til annar 17 ára kjúklingur, Kristján Helgi, úr FG með álíka "framandi" tónlistarsmekk að mati stjórnenda stöðvarinnar var settur í slottið á eftir MS og stungið uppá því að við sameinuðum krafta okkar. Þátturinn PartyZone var þá orðinn 4 tíma þáttur og farinn að ná eyrum nokkurra plötusnúða og skemmtanastjóra í borginni. Það leið ekki á löngu þeir bönkuðu uppá með plötutöskurnar og DJ græjur voru keyptar. Snemma árið 1991 var þátturinn orðinn fundarstaður DJana og nokkurra öflugra plöggara sem voru skemmtanastjórar á skemmtistöðun eða halda mislögleg RAVE partý út í bæ"
Við félagarnir gerðum okkur líklega ekki í hugarlund þá að það væri að hefjast ansi gott ferðalag með þennan útvarpsþátt sem hafði þetta stolna nafn.
Nú um 1600 þáttum, nokkrum útvarpsstöðvum, tugum partyzone kvöldum, útgefnum geisladiskum, mixteipum, reifum, fjölmörgun plötusnúðum og tæknibreytingum síðar..... möllum við ennþá áfram eins og góð díselvél árið 2025.
Lygilegt allt saman, og ennþá jafn hrikalega gaman.
Við sendum öllum okkar hlustendum innilegar stuðkveðjur og þökk fyrir alla hlustunina og mætinguna á kvöldina okkar í gegnum árin. Og svo auðvitað öllum plötusnúðunum fyrir að vera aðalvítamínsprauta þáttanna okkar.
Hér eru nokkrar myndir, pósterar ofl úr safni þáttarins valið af handahófi. Við póstum kannski einhverju meira næstu daga. Einnig má nefna að við erum mögulega með í þemaþáttaseríu í vinnslu í tilefni afmælisins. Af nógu er að taka.
dansandi kveðjur,
Helgi Már og Kristján