18/12/2025
Jólin og kvíðinn - hvað skal hafa í huga?
Börn og unglingar sem glíma við tilfinningavanda fara ekki varhluta af jólastressinu. Þau eru oft vakandi fyrir streitumerkjum og áhyggjutali foreldra sinna og þola mörg hver illa breytingar á daglegri rútínu og ófyrirsjáanleikanum sem gjarnan fylgir þessum árstíma.
Ýmislegt getur verið uppspretta ótta og depurðar svo sem jólasveinninn, kirkjuferðin, jólaballið, fjölskylduboð með fjarskyldum ættingjum, aðfangadagur, jólainnkaupin, vinaleysi, fjarvera ástvina eða heimsókn í kirkjugarðinn. Og ekki er óalgengt að börn og unglingar sýni vanlíðan sína með mótþróa, skapofsaköstum, grátköstum eða ósveigjanleika og reyni á þennan eða annan hátt að sleppa við aðstæður sem þau mikla fyrir sér.
En hvað er til ráða?
Mikilvægt er að foreldrar reyni að halda börnunum sem mest utan við áhyggjur sem fylgja jólunum, skipuleggi sig vel, haldi daglegri rútínu og tryggi nægan svefn. Þá getur gagnast vel að undirbúa erfiðar og nýjar aðstæður fyrirfram með því að útskýra til hvers er ætlast af barninu, hvernig skipulagi verður háttað, hverjir verða á staðnum og skoða myndir frá atburðum fyrri ára. Mikilvægt er að finna aðferðir sem barnið getur notað til að ráða við þessar aðstæður (s.s. öndun, telja í huganum, nálgast aðstæður og þátttöku hægt og rólega, draga sig í hlé) og gefa þeim tækifæri til að æfa sig í þeim fyrirfram. Öllum börnum getur svo gagnast að hafa yfirsýn yfir helstu viðburði fjölskyldumeðlima, komu jólasveinna, aðfangadag og svo framvegis á dagatali sem það getur fylgst með, strikað yfir það sem er lokið og telja dagana fram að viðburðum og jólum. Svo er auðvitað lykilatriði að gefa barninu tíma (og vera sjálf undirbúin fyrir að hlutirnir geti tekið lengri tíma en við höldum) og veita því mikla athygli fyrir hugrekki, virkni, þátttöku og æskilega hegðun, sérstaklega í aðstæðum sem reynast þeim erfiðar eða yfirþyrmandi.
Munum svo að það er hollt fyrir alla að halda streitunni í lágmarki t.d. að baka, skreyta og þrífa minna (eða gera það að samverustundum), fara á færri viðburði og njóta þannig betur augnabliksins og samverunnar sem fylgir þessum árstíma. Verum heldur ekki svo upptekin að „njóta“ að við gleymum að njóta.
Gleðilega aðventu!