14/06/2021
Þrjú verkefni frá Suðurnesjum fengu úthlutun úr Lóu-nýsköpunarstyrkjum fyrir landsbyggðina sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti á dögunum, en alls 29 verkefni fengu úthlutun. Hæstu styrkir nema 10 milljónum króna en verkefni af Suðurnesjum fengu úthlutanir upp á 5 og 3 milljónir.
Tamara Seeds ehf hlaut 5 milljónir í úthlutun í verkefni þar sem þróaðar eru lífvirkar húðvörur úr örþörungum.
GeoSilica Iceland ehf hlaut 3 milljónir í styrk til þess að kanna möguleika á nýtingu jarðhitakísils frá Reykjanesvirkjun.
Loks var það Vetnis ehf sem hlaut 3 milljónir úr sjóðnum vegna verkefnis sem snýr að grænu varaafli.
Hlutverk styrkjanna er að styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni, á forsendum svæðanna sjálfra. Verkefni í öllum landshlutum hljóta styrk og nema hæstu styrkir 10 milljónum króna. Verkefnin sem hljóta styrk eru af margvíslegum toga og til marks um fjölbreytt atvinnulíf um land allt. Styrkirnir voru auglýstir í febrúar en ákveðið var að hækka þá upphæð sem til ráðstöfunar er um helming. Þetta var gert í ljósi mikillar aðsóknar, en alls bárust 236 umsóknir í Lóu. Í þessari fyrstu úthlutun fengu verkefnin styrki sem nema rúmum 147 milljónum króna.
Allar úthlutanir má sjá hér
https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/05/31/Thordis-Kolbrun-tilkynnir-uthlutun-Lou-styrkja-til-nyskopunarverkefna-a-landsbyggdinni-/
Tækniþróunarsjóður styrkjum til 73 verkefna. Í boði voru styrktarflokkarnir Hagnýt rannsóknaverkefni, Fræ, Sproti, Vöxtur og Markaðsstyrkur. Alls bárust 459 umsóknir og er árangurshlutfall styrktra verkefna sem hlutfall af innsendum umsóknum 16%. Í þessari úthlutun eru styrkveitingar til nýrra verkefna 907 milljónir króna á árinu en þar sem verkefnin eru til allt að þriggja ára nemur heildarkostnaður vegna þeirra 1.775 milljónum króna. GeoSilica hlaut styrk úr styrktarflokkum Vexti.
Næsti umsóknafrestur um fyrirtækjastyrki verður 15. september 2021 og verður úthlutun vegna þeirra tilkynnt undir lok ársins. Opið er allt árið fyrir umsóknir í styrktarflokknum Fræ og Einkaleyfastyrkir.
Allar úthlutanir má sjá hér
https://www.rannis.is/frettir/taeknithrounarsjodur/voruthlutun-taeknithrounarsjods-2021
Heklan óskar styrkhöfum til hamingju.