26/09/2025
Á nýlegum fundi Málfrelsis um síðustu helgi var efnt til opinnar umræðu um innflytjendamál, orðræðu og samfélagslegrar ábyrgðar. Fundinum stýrði Magnea Marínósdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur.
Svala Magnea Ásdísardóttir, formaður félagsins, hélt inngangserindi um markmið Málfrelsis sem er að skapa vettvang fyrir opna umræðu án þöggunar og fordóma. Hún tengdi umræðu um innflytjendamál á Íslandi við víðara samhengi orðræðu og hugtakanotkun.
Í framsöguerindum komu fram ólík sjónarhorn. Þórarinn Hjartarson, stjórnsýslufræðingur og þáttastjórnandi Ein pæling, fjallaði um stöðu landamæra og setti hana í samhengi við þróun í Evrópu þar sem innflytjendamál hafa vakið pólitíska spennu sem hann telur að þurfi að varast. Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og fyrrverandi þingkona, lagði áherslu á að veikleikar í innviðum væru afleiðing pólitískra ákvarðana en ekki innflytjenda, og minnti á að innflytjendur halda uppi mörgum mikilvægustu innviðum samfélagsins. Sóley Lóa Smáradóttir, framhaldsskólanemi og samfélagsrýnir, deildi persónulegri reynslu sinni af því að vera ung íslensk kona af erlendum uppruna og undirstrikaði að fjölbreytileiki gæti orðið styrkur samfélagsins ef við veljum að byggja brýr fremur en veggi.
Í pallborði tóku sæti fulltrúar fimm stjórnmálaflokka: Dagbjört Hákonardóttir (Samfylkingu), Grímur Grímsson (Viðreisn), Kolbrún Baldursdóttir (Flokk fólksins), Ingvar S. Birgisson (Sjálfstæðisflokknum) og Einar Jóhannes Guðnason (Miðflokknum). Þeir ræddu meðal annars fjölskyldusameiningar, íslenskukennslu, atvinnuþátttöku og menningarlegar áskoranir. Ágreiningur kom fram um hvort tala ætti um „vandamál“ eða fremur „verkefni“, en allir voru sammála um mikilvægi þess að bregðast við með ábyrgð og lausnamiðaðri nálgun.
Í lokin dró Þorsteinn Siglaugsson, varaformaður Málfrelsis, saman helstu atriði. Hann lagði áherslu á að horfa til staðreynda en varaði við því að byggja á tilfinningum sem spretta af ranghugmyndum. Að hans mati skiptir tvö atriði mestu: að hjálpa þeim sem manni þykir vænt um og að leggja sitt af mörkum til að gera heiminn betri.
Hér má horfa á upptöku af fundinum og lesa ítarlega samantekt:
Félagið Málfrelsi hélt fund sl. laugardag undir yfirskriftinni: Er stjórnleysi á landamærunum að valda neyðarástandi á Íslandi? Í inngangserindi sínu lagði Svala Magnea Ásdísardóttir, formaður félagsins, áherslu á að markmið Málfrelsis væri að skapa vettvang fyrir opna umr...