09/04/2025
Það muna kannski einhverjir eftir Skagarokki, tónleikar sem voru haldnir 25. og 26. september 1992 í íþróttahöllinni á Akranesi. Þar höfðu nokkrir stórhuga menn, með hinn mikla meistara Sigurð Sverrisson í fararbroddi, fengið bæði Jethro Tull og Black Sabbath til landsins. Reyndar var upprunalega planið að Ozzy kæmi en þegar það gekk ekki upp voru Sabbath, með Ronnie James Dio fengnir í staðinn.
Þetta var mikið ævintýri en brotlendingin að sama skapi harkaleg. Það voru 2.500 miðar í boði á hvora tónleika og allir mjög bjartsýnir til að byrja með. Það var farið að tala um að gera Skagarokk að árlegum viðburði og hugtakinu „Hróarskelda Íslands“ hent fram.
Jethro Tull náðu að skrapa inn 1.500 manns sem að var nóg til að standa á sléttu. Það sama var ekki hægt að segja um Black Sabbath sem seldu heila 250 miða og margir af þeim voru útsölumiðar bara til að einhver væri í húsinu.
80´s var ekki góður áratugur fyrir Sabbath og eftir runu af mis vondum plötum var áhuginn greinilega ekki mikill þó að platan þeirra Dehumanizer sem kom út þetta ár þar sem að Dio hafði komið til baka, var reyndar alveg ljómandi fín. En það dugði greinilega ekki til.
Allt um Black Sabbath í nýjasta þætti hlaðvarpsins.