17/06/2025
Gleðilega þjóðhátíð kæru Íslendingar🇮🇸
Komdu með okkur á bakvið tjöldin þennan rennblauta þjóðhátíðardag okkar Íslendinga í þessu tæplega þriggja mínútna langa myndskeiði sem endar á blessun flutta af biskupi Íslands, Guðrúnu Karls Helgudóttur.
Dagurinn hófst á hátíðarguðsþjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík og byrjaði fólk að streyma að rétt rúmlega 09:00 í morgun.
Fyrir utan veggi kirkjunnar ómaði upphitun kórsins á Austurvelli, lögreglan var komin á sína staði, rigningin læddist niður úr skýjunum og brosandi börn voru komin á stjá.
Guðsþjónustan sjálf byrjaði kl.10:15. Biskup Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir þjónaði fyrir altari ásamt sóknarpresti Dómkirkjunnar, sr. Sveini Valgeirssyni sem prédikaði.
Guðsþjónustunni var útvarpað á Rúv en hér er brot úr bæn dagsins.
(alla bænina má sjá á Facebook síðu biskups Íslands).
Friðarins Guð, gef frið á jörðu. Stöðva ill ráð, greið veg
þeirra sem flytja sátt og semja frið milli þjóða og kynþátta
og trúarbragða.
Við felum þér líf og starf okkar allra, annir
og hvíld, og biðjum þess að við megum vinna ljóssins verk
meðan dagur er og getum örugg staðið frammi fyrir þér er
ævinni lýkur.
Í Jesú nafni.
Amen.