Helga Rósa Másdóttir formaður Fíh

  • Home
  • Helga Rósa Másdóttir formaður Fíh

Helga Rósa Másdóttir formaður Fíh Helga Rósa Másdóttir er formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þetta er vettvangur til að sýna frá störfum formanns.

Erindum til formanns og Fíh skal beina til félagsins, hægt er að hafa samband við félagið í gegnum hjukrun.is eða í síma 5406400. Erindum til formanns og Fíh skal beina til félagsins, hægt er að hafa samband við félagið á Facebooksíðu þess, í gegnum hjukrun.is eða í síma 5406400.

Við formenn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Ljósmæðrafélags Íslands, Læknafélags Íslands og Sjúkraliðafélags Íslands...
14/07/2025

Við formenn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Ljósmæðrafélags Íslands, Læknafélags Íslands og Sjúkraliðafélags Íslands hittumst í hádegisverði í síðustu viku að ræða skýrslu ríkisendurskoðunar. Við vorum sammála um að ástandið sé með öllu ólíðandi sér í lagi þar sem það var fyrirsjáanlegt.

• Það þarf að setja fram skýra áætlun um opnun hjúkrunarrýma. Hvar og hvenær nákvæmlega.
• Yfirvöld hafi yfirsýn yfir mannafla heilbrigðisstétta í landinu og geri raunhæfar spár um framtíðarþörf.
• Fjármagna þarf heilbrigðisþjónustu eftir faglegum forsendum og í þágu notenda þjónustunnar.

Á miðvikudag bárust þær fréttir til okkar hjá Fíh að heilbrigðisráðuneytið hefði boðað forstjóra heilbrigðisstofnana á fund vegna stofnanasamninga hjúkrunarfræðinga og beðið þá um að bíða og undirrita ekki þá stofnanasamninga sem útaf standa. Að okkar mati eru þessi afskipti óskiljanleg þar sem miðlægir kjarasamningar voru undirritaður fyrir sjö mánuðum síðan og stofnanasamningar eru hluti af þeim. Fyrsti stofnanasamningur Fíh við heilbrigðisstofnun eftir miðlægan samning var undirritaður fyrir 7 mánuðum og hafa 8 aðrir verið undirritaðir síðan. Það ætti því ekkert að koma yfirvöldum á óvart nú í júlí sem skýrir þessi afskipti.
Stofnanasamningur er hluti af kjarasamningi. Hann er sérstakur samningur milli stofnunar og stéttarfélags um aðlögun tiltekinna þátta kjarasamningsins að þörfum stofnunar og starfsmanna með hliðsjón af eðli starfsemi, skipulagi og/eða öðru því sem gefur stofnun sérstöðu. Ég furða mig á því að Fíh skuli ekki vera hluti af þessu samtali.

Það er því með ólíkindum að á meðan út kemur svört skýrsla um mönnun hjúkrunarfræðinga séu þetta skilaboð heilbrigðisyfirvalda. Stöðva viðræður sem hafa gengið vel og sem stuðla að sí- og endurmenntun, auknum gæðum þjónustunnar og öryggi sjúklinga.
Hjúkrunarfræðingar á þeim stofnunum sem ekki hafa fengið nýja stofnanasamninga eru gríðarlega ósáttir við þessa töf og réttilega svo.

Ég hef óskað eftir fundi með heilbrigðisráðuneyti.
Það er af nógu að taka.

Formenn fagstétta í heilbrigðiskerfinu segja nýútkomna skýrslu Ríkisendurskoðunar sýna að heilbrigðisþjónusta landsins sé rekin með óásættanlegri mönnun, brotakenndri stjórnsýslu og óraunhæfri fjármögnun.

Stundum finnst manni maður ekki hafa frá miklu að segja, þegar maður sinnir daglegum störfum eins og að vinna niður úr p...
05/07/2025

Stundum finnst manni maður ekki hafa frá miklu að segja, þegar maður sinnir daglegum störfum eins og að vinna niður úr pósthólfi eða samþykkja reikninga 👩‍💻
Svo gerast hlutir sem vert er að segja frá.
Í vikunni undirritaði Fíh tvo samninga við heilbrigðisstofnanir, HSU og HVEST. Vinnan við gerð þessara samninga var mikil og góð og færir hjúkrunarfræðingum kerfi til starfsþróunar. Við gildistöku samnings á sér stað vörpun í nýtt kerfi sem hvetur til sí-og endurmenntunar og fylgir launaþróun einnig því ferli. Þetta er frábært hagsmunamál sem hér hefur verið samið um og óska ég hjúkrunarfræðingum þessara stofnana til hamingju með nýjan samning og þakka viðsemjendum fyrir árangursríkt og ánægjulegt samstarf. Það eru fleiri samningslok í sjónmáli meðan hægar gengur hjá öðrum. Við hjá Fíh höldum ótrauð áfram vinnu við endurnýjun samninga þar til öllum er náð í hús.

Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar (RE) kom út í vikunni um mönnun og flæði sjúklinga á Landspítalahttps://hjukrun.cdn.prismic.io/hjukrun/aGUnKnfc4bHWi9V1_2025-Landspítali_mönnun_og_flæði.pdf

Fyrr í vetur óskaði RE eftir áliti Fíh á því hversu vel hefði tekist að fara eftir tillögum úr fyrri skýrslum sem yfirvöld hafa gefið út. Tók ég ásamt Guðbjörgu þáverandi formanni kerfisbundið saman það sem útaf stóð í skýrslunni Árangur stjórnvalda
varðandi mönnun og menntun hjúkrunarfræðinga. Álit Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga vegna úttektar Ríkisendurskoðunar
https://hjukrun.cdn.prismic.io/hjukrun/aGUm73fc4bHWi9VZ_Skýrsla2025_Árangurstjórnvaldavarðandimönnunogmenntunhjúkrunarfræðinga.pdf

Í áliti okkar kemur skýrt fram hversu margt má betur fara og hversu fáum tillögum er í raun fylgt eftir af yfirvöldum. Það er einmitt ein helsta gagnrýnin í skýrslu RE, kerfisleg lausatök og skortur á yfirsýn heilbrigðisyfirvalda.

Það er engin tilviljun að ég hafi boðið mig fram til formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Það er ekkert í skýrslu RE sem kom á óvart. Lestur skýrslunnar var átakanlegur bæði faglega og persónulega. Ég sagði starfi mínu sem deildarstjóri bráðamóttöku á LSH lausu því mér þótti starfsumhverfið óásættanlegt, álagið ómanneskjulegt og það voru engar raunverulegar áætlanir um breytingar til batnaðar. Ástandið var svo slæmt að starfsemin var undir sérstöku eftirliti landlæknis sem loks komst að þeirri niðurstöðu að réttast væri að loka deildinni sökum þess að ekki var hægt að tryggja öryggi sjúklinga eða starfsfólks og er fráflæðisvandinn helsta skýringin á því. Það var auðvitað ekki gerlegt að loka sökum sérstöðu deildarinnar en engar aðrar lausnir voru í sjónmáli og skilningur á stöðunni í efri stjórnkerfum takmarkaður. Ég tek fram að ég sakna samstarfsfólksins og þess að sinna bráðveikum og slösuðum. Minn tími þar kemur vonandi aftur.
Ég þekki því tölfræði Landspítala vel og þykir sorglegt að ástandið sé síst betra nú á þessum stærsta vinnustað hjúkrunarfræðinga landsins.
Ég tel ekki vænlegt að benda fingrum eða eyða orku í að finna blóraböggla. Langflestir eru að gera sitt besta almenningi til heilla að mínu mati. Kerfið er þungt og flókið. Kannski óþarflega svo þar sem sérhagsmunir hafa stundum ráðið vegna sterkrar stöðu í málefnum þar sem þekking er sértæk og markaður okkar lítill og brothættur.
Við eigum að geta gert betur. Samvinna er það sem við þurfum nú og vona ég að það verði orð næstu úttektar. Það er það sem þeir sem þurfa hjúkrun, líkn eða lækningu þarfnast. Samvinnu okkar allra. Gerum betur.

Það er sitthvað fleira að frétta, ég fékk heimsókn frá Bergdísi Kristjánsdóttur í muna-og minjanefnd Fíh og sagði hún mér frá starfsemi nefndarinnar. Það er mikilvægt að þekkja söguna, læra af og bera virðingu fyrir þeim sem á undan hafa gengið.
Einnig áttum við fund með Ljósmæðrafélagi Íslands vegna samstarfs 17. september sem er dagur öryggis sjúklinga. Þemað í ár er örugg heilbrigðisþjónusta fyrir börn og nýbura og er ætlun okkar að vekja athygli á því saman.
Þar til næst, hafið það gott ❤️

Stutt vika liðin en nóg um að vera. Málþingið Flöggum fána lýðheilsu var haldið á mánudaginn var, þann 16.júní, en þá vo...
20/06/2025

Stutt vika liðin en nóg um að vera. Málþingið Flöggum fána lýðheilsu var haldið á mánudaginn var, þann 16.júní, en þá voru liðin 5 ár síðan ÁTVR kærði áfengisnetsölu til lögreglu en ekkert hefur þó gerst í því máli, sem er auðvitað skandall eins og Hans Kluge umdæmisstjóri skrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar fyrir Evrópu, sagði. Fleiri tóku til máls á þinginu, meðal annars Alma Möller heilbrigðisráðherra, María Heimisdóttir landlæknir og Willum Þ. Þórsson forseti ÍSÍ. Öll voru þau sammála um að aukið aðgengi að áfengi er verulega slæmt og að „normalísering” áfengisdrykkju sé slæm þróun í íslensku samfélagi. Fíh var boðið á málþingið og mætti ég ásamt Helgu Pálmadóttur sviðstjóra fagsviðs til þess að sýna þessu mikilvæga lýðheilsumáli athygli og stuðning. Fíh tekur að öllu leiti undir orð þeirra sem tóku til máls á málþinginu. Vek ég hér með athygli á þýðingu sem kom út á vef Landlæknisembættis núna á mánudag sem ber heitið Áfengi: Engin venjuleg vara. Þar er farið yfir faraldsfræðileg gögn sem sýna að áfengisnotkun á stóran þátt í alþjóðlegri byrði sjúkdóma, örorku og dauða jafnt í hátekju-, meðaltekju- sem og lágtekjulöndum. Áhrifaríkustu aðferðirnar til verndar lýðheilsu er skattlagning sem hækkar verð á áfengi ásamt takmörkunum á aðgengi að áfengi sem og bann við markaðssetningu þess.
Hér má lesa þýðinguna á vef landlæknis.
https://assets.ctfassets.net/8k0h54kbe6bj/27km5MRQoD0zY2W3uO00nt/76d79188c7d6c48de8ee5e91a8bd4183/%C3%83_fengi_engin_venjuleg_vara_2025.pdf

Við flögguðum einnig fána á þriðjudag en það var nú til þess að fagna sjálfstæði og lýðræði okkar Íslendinga 🇮🇸 og vona ég að öll hafi gert sér einhvern dagamun í tilefni þess, hvort sem það var á vakt eða í frítíma. Ég fagnaði á hefðbundinn hátt í skrúðgöngu ☔️ og með því að fá mér þjóðlega vöfflu með rjóma.
Það var enn frekar tilefni til að fagna á fimmtudag þann 19.júní en á þeim degi fyrir 21 ári útskrifaðist ég sem hjúkrunarfræðingur. Það er ótrúlega gaman að sjá á samfélagsmiðlum hversu mörg voru að útskrifast í vikunni. Ég óska öllum til hamingju og þeim sem útskrifuðust sem hjúkrunarfræðingar óska ég sérstaklega til hamingju og býð þau hjartanlega velkomin í stéttina og félagið okkar 💐
Stofnanasamningar eiga enn stóran hluta af vinnu minni og kjarasviðs þessa dagana. Það er gott þegar gengur vel og vil ég hrósa þeim stofnunum sem gengur vel að vinna með. Vonandi náum við að klára að hnýta hnúta með amk þremur stofnunum næstu tvær vikur.
Aðrir sem ekki hafa forgangsraðað samtali við Fíh um stofnanasamninga hjúkrunarfræðinga í um hálft ár mega endilega setja það samtal fremst á sinn lista ekki seinna en núna. Fundarboð Fíh stendur opið nú, eins og síðustu mánuði.
Loks get ég sagt frá tveimur heimsóknum til mín í vikunni. Önnur frá kanadískum blaðamanni sem langaði að fræðast um styttingu vinnuvikunnar, en það var auðvitað mikil bylting sem varð á vinnumarkaði þegar vinnuvikan var stytt og horfa margir öfundaraugum til Íslands í því samhengi. Hin heimsóknin var frá framkvæmdastjóra RetinaRisk en þau vinna við að auka aðgengi að augnskimun fyrir fólk með sykursýki. RetinaRisk hefur verið að vinna pilot verkefni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja HSS og í Lyfju þar sem hjúkrunarfræðingar framkvæma skimun og geta þar með forgangsraðað þeim sem þurfa á sérfræðiþjónustu að halda. Frábært þegar hjúkrunarfræðingar taka þátt í nýsköpun með þessum hætti.
Ég vona að allir hafi það gott næstu daga.
Mín bíður 💦☔️💨 á ⚽️móti með yngsta afkvæminu.
Þar til næst 🫶

17/06/2025

Gleðilega þjóðhátíð 🇮🇸 Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga

Viðburðarrík vika að baki í Finnlandi. Fyrst á þingi ICN og svo á ráðstefnu með 7000 hjúkrunarfræðingum, þar af um 130 f...
14/06/2025

Viðburðarrík vika að baki í Finnlandi. Fyrst á þingi ICN og svo á ráðstefnu með 7000 hjúkrunarfræðingum, þar af um 130 frá Íslandi.
Það fer mikil vinna í undirbúning og þátttöku í þinginu sem kallast CNR eða Council of National Nursing Association Representatives

https://www.icn.ch/who-we-are/organization/council-national-nursing-association-representatives-cnr.

Á þinginu var samþykkt ályktun, sem Ísland stóð meðal annars að, um að allar þjóðir virði alþjóðalög. Heilbrigðisstarfsfólk á ekki að vera skotmark í átökum og sýna þarf samstöðu með þeim hjúkrunarfræðingum sem starfa á ófriðarsvæðum.

Einnig var samþykkt ný skilgreining á hjúkrunarfræði og hjúkrunarfræðingi. Það eru stór tímamót, en skilgreiningin var síðast uppfærð árið 1987. Nú verður það verkefni Fíh að skoða okkar eigin skilgreiningar í framhaldinu og hvort tilefni sé til þess að uppfæra þær.

https://www.icn.ch/sites/default/files/2025-06/ICN_Definition-Nursing_Report_EN_Web_0.pdf

Svo var kynnt yfirlýsing sem kallast Helsinki Communiqué. Mikil vinna hefur verið lögð í hana af hálfu allra aðildarfélaga ICN og var lokahnykkurinn lagður á þinginu sjálfu. Meginskilaboð yfirlýsingarinnar eru að hjúkrun sé fjárfesting – ekki kostnaður. Hér má lesa hana:https://www.icn.ch/system/files/documents/2025-06/Helsinki%20Communique_FINAL.pdf

Howard Catton, framkvæmdastjóri ICN, nefndi í erindi sínu að fjöldi nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga sé að aukast í sumum fátækari löndum, en dragist saman í ríkari löndum. Samt sé skorturinn á hjúkrunarfræðingum mestur í fátækari löndum, sem bendir til að ekki sé verið að virða tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um siðferðilegar ráðningar milli landa – sem er auðvitað óásættanlegt.

Það var gaman að sjá hjúkrunarnema halda sinn eigin fund samhliða þinginu og svo koma inn og kynna sínar áherslur. Nemarnir lögðu mikla áherslu á að hlúa vel að nemum – þannig að þau mæti til starfa með fullt batterí, ekki tómt. Mikilvæg skilaboð það.

Eins og fram kom í síðasta pósti frá mér var ég sett í nefnd um að yfirfara bráðar ályktanir sem bárust þinginu. Fjórar slíkar bárust nefndinni, en því miður uppfyllti engin þeirra skilyrði ICN fyrir að vera bráð ályktun – þó efni þeirra hafi í öllum tilvikum verið mikilvæg. ICN mun koma efni þeirra í viðeigandi farveg og vekja athygli á því sem réttilegt er.

Að lokum má nefna að þetta var síðasta þing Pamelu Cipriano sem forseta ICN – og José Luis Cobos Serrano tók við keflinu. Pamela Cipriano hefur verið einstaklega ötul talskona hjúkrunarfræðinga, en spennandi verður að fylgjast með José í þessu nýja hlutverki. Hann er okkur að góðu kunnur í gegnum Evrópusamstarf okkar.

Að þingi loknu tók svo ráðstefna ICN við, en hana sóttu 7000 hjúkrunarfræðingar alls staðar úr heiminum. Ísland mætti með glæsilegan hóp 130 hjúkrunarfræðinga. Þó nokkrir voru með veggspjöld og enn aðrir með erindi.
Ráðstefnan er sett með stórri opnunarhátíð og svokallaðri Parade of Nations, sem er skemmtileg hefð. Ég ásamt Huldu Björgu sviðstjóra hjá Fíh, tókum þátt í göngunni og klæddumst við upphlut og stigum léttan dans frammi fyrir um 4000 hjúkrunarfræðingum. Það var mjög skemmtileg upplifun.

Næstu dagar ráðstefnu voru fullir af fróðleik, skemmtun og auðvitað áframhaldandi vinnu við að halda hlutum gangandi heima. Þeir fyrirlestrar sem ég hlustaði á komust allir að þeirri niðurstöðu að þegar hjúkrunarfræðingar eru í góðri stöðu, hvað varðar réttan fjölda, menntun, hæfni og áhrif, þá farnast heilbrigðiskerfum betur. Það á við öll þau sem vinna innan kerfana og ekki síst þeim sem þurfa á þeim að halda. Einnig var mjög áhugavert að heyra hagfræðing segja frá rannsókn sem sýndi að hjúkrun er fjárhagslega hagkvæm, að hvert stöðugildi hjúkrunarfræðings skilar þreföldum gróða til samfélags og að ríkisstjórnir eiga að fjárfesta í hjúkrun því það er mikilvægt fyrir afkomu þjóða.

NNF (Nordic Nurses Federation) https://www.nordicnurses.org, sem Ísland hefur verið hluti af í rúm 100 ár, var með heilmikla og skemmtilega dagskrá á þinginu. Haldin var norræn móttaka sem yfir 1000 hjúkrunarfræðingar sóttu. Þar var mikið fjör í glæsilegri aðstöðu í Finlandia Hall. Einnig stóðum við saman að einni main session þar sem við sýndum það besta sem hjúkrunarfræðingar Norðurlanda hafa fram að færa í dag. Þorsteinn Jónsson kom fram fyrir okkar hönd og sagði frá frábærri vinnu við hermikennslusetrið Hermís. Það sást glöggt í erindi hans hversu framarlega við á Íslandi erum í hermikennslu og að hjúkrunarfræðingar hafa leitt þá þróun og eiga að gera það áfram. Björn úr ABBA lokaði svo atriði okkar með hjartnæmum skilaboðum og svo var laginu Waterloo blastað þannig að allur salurinn brást í dans. Þetta var mjög vel heppnað.
NNF var einnig með bás þar sem hægt var að kynnast hjúkrunarfræði á Norðurlöndunum – og fá af sér Banksy-mynd sem Nurse superhero!

Á milli alls þessa voru svo haldnir bæði fjar-og staðfundir varðandi stofnanasamninga. Það er frábært hve vel gengur hjá flestum.
Aftur á móti er ekki eins frábært þegar stofnanir forgangsraða hjúkrunarfræðingum ekki eins og vera ber. Þá er gott að við eigum í góðu sambandi við öfluga trúnaðarmenn, þannig að við getum verið með allar staðreyndir á hreinu við viðsemjendur okkar.

Allt í allt frábær vika. Það er ljóst að það býr mikill kraftur í hjúkrunarfræðingum – en það þarf að fjárfesta í honum og nýta hann rétt 💪

Dagarnir líða hratt þegar nóg er að gera. Í vikunni undirrituðum við stofnanasamning við Hrafnistuheimilin, Skjól, Eir o...
07/06/2025

Dagarnir líða hratt þegar nóg er að gera. Í vikunni undirrituðum við stofnanasamning við Hrafnistuheimilin, Skjól, Eir og Hamra og Grundarheimilin. Það var einstaklega gleðilegt 🍀 Í þessum samningi er ákvæði um starfsþróunarkerfi, meiri launaspönn, fleiri starfslýsingar auk annarra þátta. Allir græða, hjúkrunarfræðingurinn aukna þekkingu og hæfni, vinnuveitandinn fær verðmætari starfsmann og gæði og öryggi þjónustunnar vex öllum til heilla 🌟
Áfram fundum við með stofnunum kringum landið og er allt kapp lagt á að koma samningum í hús fyrir júnílok, hver klárar næst 🏁
Ég skundaði á LSH, minn gamla vinnustað á samstarfsnefndarfund ásamt kjarakonum Fíh Huldu og Evu en mikilvægt er að eiga hreinskiptið samtal við stærsta vinnuveitanda hjúkrunarfræðinga á Íslandi reglulega.
Loks var svo komið að Helsinki ferð okkar Huldu á þing Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga, en það sækja um 140 fulltrúar 30 milljón hjúkrunarfræðinga hvaðanæva að úr heiminum. Fyrir þing hittast fulltrúar Norðurlandanna á undirbúningsfundi til þess að fara yfir efni fundarins og bera saman bækur sínar. Frábært samstarf okkar á milli. Ég mun leyfa ykkur að fylgjast með því sem fram fer á þinginu í næsta fréttaskoti frá mér, en get sagt frá því núna að ég á sæti í nefnd á þinginu sem hefur það hlutverk að yfirfara bráðar óskir um ályktanir sem berast. Einnig verður fyrirferðarmikið efni frá mér næst varðandi ráðstefnuna sem haldin er í framhaldi af þinginu. Það verður gaman þegar 7000 hjúkrunarfræðingar mæta til leiks hingað til Helsinki ❤️🇮🇸🇫🇮❤️

Í vikunni kom tilkynning frá Howard Catton framkvæmdastjóra Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) um að loka þyrfti fyrir ...
31/05/2025

Í vikunni kom tilkynning frá Howard Catton framkvæmdastjóra Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) um að loka þyrfti fyrir skráningu á ICN ráðstefnuna sem haldin verður í Helsinki núna í byrjun júní vegna aðsóknar fram úr væntingum!
Það er gaman að segja frá því að yfir 100 hjúkrunarfræðingar frá Íslandi eru skráðir og eru þó nokkrir með veggspjöld og erindi 🥳
Ef þú ert að fara til 🇫🇮 þá eru 3 viðburðir sem þú mátt ekki missa af sem Fíh stendur fyrir í samvinnu við samtök hjúkrunarfélaga Norðurlandanna NNF 🦢🦢🦢🦢🦢🦢

✅ 10. júní Norrænt boð í Finlandia Hall, muna að skrá sig 💃🏼🕺🏼https://www.nordicnurses.org/nnf-the-icn-congress-2025-in-helsinki
✅ Main session hádegi 11. júní. Þar sem Þorsteinn okkar Jónsson ætlar að brillera og segja frá hermikennslu Experience Nordic Nursing at the ICN Congress https://icncongress.org/220/agenda -schedule-accordion-content-day-02-017
✅ Heimsækja NNF básinn í sýningarsalnum, fræðast, hitta aðra hjúkrunarfræðinga og smella af sér mynd sem Nurse superhero 🦸 Einnig verður boðið upp á meet the presidents þar sem formenn félaganna verða á staðnum fyrir spjall.

Nú hefur Helga Pálmadóttir tekið við sem sviðsstjóri fagsviðs og fundaði föngulegur hópur formanna fag- og landsvæðadeilda á Suðurlandsbrautinni á þriðjudag með okkur. Ég þakka fag-og landsvæðadeildum kærlega fyrir allt samstarfið síðustu ár sem sviðsstjóri fagsviðs og hlakka til áframhaldandi samstarfs sem formaður 🤝
Ég var þó ekki lengi á fundi með þeim því í næsta herbergi var fundur með SFV varðandi stofnanasamninga og gengur sú vinna vel.
Veðrið hefur leikið við okkur síðustu daga og vorum við svo heppin að njóta blíðunnar ☀️ þegar við starfsfólkið kvöddum Steinunni okkar sem hefur starfað á skrifstofu félagsins sem umsjónarmaður sjóða í 25 ár af einstakri alúð og einnig hana Guðbjörgu sem sinnt hefur formennsku Fíh með sóma og glæsibrag síðustu 9 ár 🥰

Ég er mjög ánægð með að Alma D. Möller heilbrigðisráðherra taki svona vel undir ályktun okkar. Er svo hjartanlega sammál...
29/05/2025

Ég er mjög ánægð með að Alma D. Möller heilbrigðisráðherra taki svona vel undir ályktun okkar. Er svo hjartanlega sammála um að útfærslan eigi að byggja á skynsemi öllum til heilla. Við í okkar litla samfélagi þar sem boðleiðir eru stuttar, höfum alla burði til þess að vinna samstillt að góðri móttöku þeirra sem hingað vilja flytjast og starfa.

Krafa Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um íslenskukunnáttu á sér fullgild rök og eðlilegt er að tryggja að allir geti átt skilvirk og örugg samskipti á íslensku. Það er þó staðreynd að heilbrigðiskerfið þarf á fjölbreyttu og alþjóðlegu fagfólki að halda og því er...

Nú er liðin vika frá því ég tók við sem formaður Fíh og það má sannarlega segja að það hafi verið nóg að gera. Ályktun o...
23/05/2025

Nú er liðin vika frá því ég tók við sem formaður Fíh og það má sannarlega segja að það hafi verið nóg að gera. Ályktun okkar hjúkrunarfræðinga um kröfu um íslenskukunnáttu vakti mikla athygli og voru nánast allir miðlar landsins tilbúnir að ræða við mig um þetta mikilvæga baráttumál.

Ég byrjaði á viðtali við Morgunblaðið, þaðan á Bylgjuna, svo RÚV, þaðan aftur á Bylgjuna og loks á Útvarp Sögu þar sem ég fékk góðan tíma til að koma á framfæri málefnum sem skipta okkur hjúkrunarfræðinga máli.

Flestir hafa tekið ályktuninni fagnandi en eins og ég sagði í viðtölunum þá skiptir öllu máli að við tökum vel á móti þeim hjúkrunarfræðingum sem flytja til Íslands, bæði skjólstæðingunum til heilla og líka þannig að þau geti nýtt sína starfskrafta til fulls. Við viljum hafa heilbrigðisþjónustuna okkar í hæsta gæðaflokki og eigum hvergi að gefa eftir.

Verkefnið núna er gerð stofnanasamninga. Ég sagði það í kosningabaráttunni fyrir formannskjörið að mig hlakkaði mikið til að demba mér ofan í þá vinnu. Núna, að nokkrum fundum liðnum, get ég sagt að sú vinna gengur vel.

Í gær hélt ég minn fyrsta stjórnarfund, í stjórninni er kominn saman fjölbreyttur hópur öflugra hjúkrunarfræðinga og hlakka ég mjög til samstarfsins.

Í morgun fundaði ég og Helga Pálmadóttir, sviðsstjóri fagsviðs, með Þórunni hjá Athygli ráðstefnum um Hjúkrun 2025. Í næstu viku verður tilkynnt um fyrirlesara á ráðstefnunni - Það er ljóst að það verður dúndur ráðstefna í Hofi á Akureyri í september og hlakka ég til að sjá sem flesta hjúkrunarfræðinga þar.

Góða helgi öll!

Ég vil þakka innilega traustið sem mér hefur verið sýnt í kosningu til formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fy...
04/03/2025

Ég vil þakka innilega traustið sem mér hefur verið sýnt í kosningu til formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fyrir öll hlýlegu skilaboðin. Ég er stolt og þakklát og hlakka til að vinna að hagsmunum hjúkrunarfræðinga af krafti.

Einnig vil ég þakka Huldu og Jórunni fyrir málefnalega og vandaða kosningabaráttu.

Ég hlakka til að vinna með hjúkrunarfræðingum að öflugri og sterkri stétt sem stendur saman um farsæla framtíð hjúkrunar.

Talandi um að hvert atkvæði skipti máli 🦅Hvet alla hjúkrunarfræðinga til þess að kjósa ✅https://www.hjukrun.isDeilingar,...
02/03/2025

Talandi um að hvert atkvæði skipti máli 🦅
Hvet alla hjúkrunarfræðinga til þess að kjósa ✅

https://www.hjukrun.is

Deilingar, like og hjörtu hjálpa til við dreifingu 😉

Laun og kjör hjúkrunarfræðinga eiga að endurspegla ábyrgð, menntun, hæfni og reynslu þeirra. Það þarf að byggja á því jákvæða skrefi sem tekið var við síðustu kjarasamninga þar sem samið var um nýja launatöflu sem er í samræmi við aðra háskólamenntaða sérfræðinga...

Address


Alerts

Be the first to know and let us send you an email when Helga Rósa Másdóttir formaður Fíh posts news and promotions. Your email address will not be used for any other purpose, and you can unsubscribe at any time.

Contact The Business

Send a message to Helga Rósa Másdóttir formaður Fíh:

Shortcuts

  • Address
  • Alerts
  • Contact The Business
  • Claim ownership or report listing
  • Want your business to be the top-listed Media Company?

Share