14/06/2025
Viðburðarrík vika að baki í Finnlandi. Fyrst á þingi ICN og svo á ráðstefnu með 7000 hjúkrunarfræðingum, þar af um 130 frá Íslandi.
Það fer mikil vinna í undirbúning og þátttöku í þinginu sem kallast CNR eða Council of National Nursing Association Representatives
https://www.icn.ch/who-we-are/organization/council-national-nursing-association-representatives-cnr.
Á þinginu var samþykkt ályktun, sem Ísland stóð meðal annars að, um að allar þjóðir virði alþjóðalög. Heilbrigðisstarfsfólk á ekki að vera skotmark í átökum og sýna þarf samstöðu með þeim hjúkrunarfræðingum sem starfa á ófriðarsvæðum.
Einnig var samþykkt ný skilgreining á hjúkrunarfræði og hjúkrunarfræðingi. Það eru stór tímamót, en skilgreiningin var síðast uppfærð árið 1987. Nú verður það verkefni Fíh að skoða okkar eigin skilgreiningar í framhaldinu og hvort tilefni sé til þess að uppfæra þær.
https://www.icn.ch/sites/default/files/2025-06/ICN_Definition-Nursing_Report_EN_Web_0.pdf
Svo var kynnt yfirlýsing sem kallast Helsinki Communiqué. Mikil vinna hefur verið lögð í hana af hálfu allra aðildarfélaga ICN og var lokahnykkurinn lagður á þinginu sjálfu. Meginskilaboð yfirlýsingarinnar eru að hjúkrun sé fjárfesting – ekki kostnaður. Hér má lesa hana:https://www.icn.ch/system/files/documents/2025-06/Helsinki%20Communique_FINAL.pdf
Howard Catton, framkvæmdastjóri ICN, nefndi í erindi sínu að fjöldi nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga sé að aukast í sumum fátækari löndum, en dragist saman í ríkari löndum. Samt sé skorturinn á hjúkrunarfræðingum mestur í fátækari löndum, sem bendir til að ekki sé verið að virða tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um siðferðilegar ráðningar milli landa – sem er auðvitað óásættanlegt.
Það var gaman að sjá hjúkrunarnema halda sinn eigin fund samhliða þinginu og svo koma inn og kynna sínar áherslur. Nemarnir lögðu mikla áherslu á að hlúa vel að nemum – þannig að þau mæti til starfa með fullt batterí, ekki tómt. Mikilvæg skilaboð það.
Eins og fram kom í síðasta pósti frá mér var ég sett í nefnd um að yfirfara bráðar ályktanir sem bárust þinginu. Fjórar slíkar bárust nefndinni, en því miður uppfyllti engin þeirra skilyrði ICN fyrir að vera bráð ályktun – þó efni þeirra hafi í öllum tilvikum verið mikilvæg. ICN mun koma efni þeirra í viðeigandi farveg og vekja athygli á því sem réttilegt er.
Að lokum má nefna að þetta var síðasta þing Pamelu Cipriano sem forseta ICN – og José Luis Cobos Serrano tók við keflinu. Pamela Cipriano hefur verið einstaklega ötul talskona hjúkrunarfræðinga, en spennandi verður að fylgjast með José í þessu nýja hlutverki. Hann er okkur að góðu kunnur í gegnum Evrópusamstarf okkar.
Að þingi loknu tók svo ráðstefna ICN við, en hana sóttu 7000 hjúkrunarfræðingar alls staðar úr heiminum. Ísland mætti með glæsilegan hóp 130 hjúkrunarfræðinga. Þó nokkrir voru með veggspjöld og enn aðrir með erindi.
Ráðstefnan er sett með stórri opnunarhátíð og svokallaðri Parade of Nations, sem er skemmtileg hefð. Ég ásamt Huldu Björgu sviðstjóra hjá Fíh, tókum þátt í göngunni og klæddumst við upphlut og stigum léttan dans frammi fyrir um 4000 hjúkrunarfræðingum. Það var mjög skemmtileg upplifun.
Næstu dagar ráðstefnu voru fullir af fróðleik, skemmtun og auðvitað áframhaldandi vinnu við að halda hlutum gangandi heima. Þeir fyrirlestrar sem ég hlustaði á komust allir að þeirri niðurstöðu að þegar hjúkrunarfræðingar eru í góðri stöðu, hvað varðar réttan fjölda, menntun, hæfni og áhrif, þá farnast heilbrigðiskerfum betur. Það á við öll þau sem vinna innan kerfana og ekki síst þeim sem þurfa á þeim að halda. Einnig var mjög áhugavert að heyra hagfræðing segja frá rannsókn sem sýndi að hjúkrun er fjárhagslega hagkvæm, að hvert stöðugildi hjúkrunarfræðings skilar þreföldum gróða til samfélags og að ríkisstjórnir eiga að fjárfesta í hjúkrun því það er mikilvægt fyrir afkomu þjóða.
NNF (Nordic Nurses Federation) https://www.nordicnurses.org, sem Ísland hefur verið hluti af í rúm 100 ár, var með heilmikla og skemmtilega dagskrá á þinginu. Haldin var norræn móttaka sem yfir 1000 hjúkrunarfræðingar sóttu. Þar var mikið fjör í glæsilegri aðstöðu í Finlandia Hall. Einnig stóðum við saman að einni main session þar sem við sýndum það besta sem hjúkrunarfræðingar Norðurlanda hafa fram að færa í dag. Þorsteinn Jónsson kom fram fyrir okkar hönd og sagði frá frábærri vinnu við hermikennslusetrið Hermís. Það sást glöggt í erindi hans hversu framarlega við á Íslandi erum í hermikennslu og að hjúkrunarfræðingar hafa leitt þá þróun og eiga að gera það áfram. Björn úr ABBA lokaði svo atriði okkar með hjartnæmum skilaboðum og svo var laginu Waterloo blastað þannig að allur salurinn brást í dans. Þetta var mjög vel heppnað.
NNF var einnig með bás þar sem hægt var að kynnast hjúkrunarfræði á Norðurlöndunum – og fá af sér Banksy-mynd sem Nurse superhero!
Á milli alls þessa voru svo haldnir bæði fjar-og staðfundir varðandi stofnanasamninga. Það er frábært hve vel gengur hjá flestum.
Aftur á móti er ekki eins frábært þegar stofnanir forgangsraða hjúkrunarfræðingum ekki eins og vera ber. Þá er gott að við eigum í góðu sambandi við öfluga trúnaðarmenn, þannig að við getum verið með allar staðreyndir á hreinu við viðsemjendur okkar.
Allt í allt frábær vika. Það er ljóst að það býr mikill kraftur í hjúkrunarfræðingum – en það þarf að fjárfesta í honum og nýta hann rétt 💪